
Frá - skrifa eða valdu stað á korti
Til - skrifa eða veldu stað á korti
Leita

Farþegar á landsbyggðinni
Mikilvægt er að farþegar sem ferðast með Strætó á landsbyggðinni hafi eftirfarandi í huga og kynni sér áður en ferðalagið hefst.
-
Undirbúningur ferðalagsins er á ábyrgð farþegans. Viðkomandi þarf að hafa keypt sér það fargjaldaform sem hann hyggst nota áður en hann fer af stað. Annars greiðir hann staðgreiðsluverð.
-
Nauðsynlegt er að halda ávallt upp á kvittunina fyrir fargjaldinu. Ef ferðarof verður og farþegi getur ekki sýnt fram á að hann hafi greitt fargjaldið með sannanlegum hætti (kvittun) hefur hann ekki rétt á endurgreiðslu fargjalds.
-
Tekið er við staðgreiðslu, kredit- og debetkortum og farmiðum í vögnunum.
-
Þráðlaust net, rafmagnsinnstungur og salerni eru í vögnunum sem aka á landsbyggðinni.
-
Ef ferðatilhögun farþega breytist án aðkomu Strætó er það að fullu á ábyrgð farþegans og á hann þá ekki rétt á endurgreiðslu (farþegi ákveður vegna einhvers að verða eftir á leiðinni og nýta sér ekki þá ferð sem hann hefur greitt fyrir).
-
Farþegar geta haft með sér farangur, bílarnir eru útbúnir farangurslestum. Miðað er við magn farangurs sem einn farþegi getur borið.
-
Þeir sem ferðast reglulega með Strætó á landsbyggðinni geta skráð sig í sms hópa sem eiga við tiltekna leið og fengið upplýsingar um breytingar á ferðum. Vinsamlegast sendið netpóst á netfangið thjonustuver@straeto.is með símanúmeri, nafni og leiðarnúmeri.
-
Farþegar eru á eigin ábyrgð ef þeir fara út úr vögnunum á leiðinni. Farþegar þurfa að fylgjast með tímasetningum og vera komnir út í vagninn áður en hann leggur af stað. Vagnstjóri fylgist ekki með farþegum á biðstöðvum. ATH farið er eftir klukkunni í vögnunum, eftir henni er ekið.
-
Á vögnunum eru hjólagrindur sem bera 3-4 hjól, ef vagnstjórinn metur það sem svo að pláss sé í farangursrými fyrir fleiri hjól er honum í sjálfsvald sett að taka fleiri hjól með.
Ferðareglur fyrir börn á landsbyggðinni:
1. Börn, 8 ára og yngri, hafa ekki leyfi til að ferðast ein með Strætó. Börn 8. ára og yngri verða að hafa ferðafélaga alla leið á áfangastað sem er 12 ára eða eldri.
2. Vagnstjórar Strætó geta aldrei borið ábyrgð á börnum í Strætó, þar með talið hvort þau fari út á tilgreindum stað. Forráðamenn barna eru vinsamlegast beðnir um að fara ekki fram á við vagnstjóra að taka ábyrgð á barninu meðan á ferðalaginu stendur.
3. Börn sem eru of ung til að ferðast ein, 8 ára og yngri, og eru ekki í fylgd með eldra barni verður ekki hleypt inn í vagninn.
Börn sem ferðast á landsbyggðinni
Afar mikilvægt er að börnin séu vel undirbúin fyrir ferðalagið af forráðamönnum sínum:
-
Þau viti nákvæmlega hvar þau eigi að fara út, eða skipta um bíl.
-
Það sé tryggt að þau séu sótt á áfangastað.
-
Þau sitji eins framarlega í vagninum og unnt er.
-
Að þau hafi farsíma meðferðis, ef mögulegt er, með helstu númerum forráðamanna.
Vindviðmið Strætó á landsbyggðinni
Mikilvægt er að farþegar sem ætla sér að ferðast með Strætó á landsbyggðinni fylgist með veðurspám. Þegar vont er veður og/eða færð er slæm, tekur Strætó öryggi farþega og starfsfólks fram yfir tímaáætlun. Eftirfarandi listi segir til um þau vindviðmið sem Strætó fer eftir í akstri á landsbyggðinni.
Viðmið VÍS/Strætó eru eftirfarandi:
Gefnar skulu út viðvaranir til bílstjórar vöruflutninga og fólksflutningaökutækja þegar meðal vindhraði er orðinn eftirfarandi:
-
1 Stig: Meðal vindhraði er 20 m/S (þá eru vindkviður að fara upp í 20-30 m/s) – Ef mikil hálka er á vegum og ökutækið með léttan/tóman vagn, ber að stöðva það
-
2 Stig: Meðal vindhraði er 24 m/s (þá þarf að tékka á öðrum hvort þeir hafi komist áfram - Ef mikil hálka er á vegum og ökutækið með léttan/tóman vagn, ber að stöðva það
-
3 Stig: Meðal vindhraði er 28 m/s – þá skal stoppa ökutæki
Þessi viðmið VÍS eru byggð á margra ára tjónareynslu félagsins hjá hópbifreiðum og vöruflutningaökutækjum um allt land.